154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Skattaálögur á íslenskan almenning hafa aukist, það liggur alveg ljóst fyrir. Og hvað varðar útgjöldin þá hafa þau aukist líka, sannarlega hafa þau aukist gífurlega eins og var kannski megininntak ræðu minnar hérna áðan. Munurinn er þó fyrst og fremst sá, eins og ég nefndi í fyrra svari, að þessi miklu útgjöld, þessi mikla útgjaldaaukning er umfram tekjur, langt umfram tekjur ríkisins. Með öðrum orðum er ríkið núna, þrátt fyrir skattahækkanirnar allar og gjaldahækkanirnar, rekið með methalla og útgjöldin einhver þau mestu sem nokkurn tímann hafa sést, raunar þau mestu, jafnvel þótt litið sé til rauntalna. Útgjöld hafa aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar um meira en þriðjung þótt litið sé á raunvirði, verðleiðrétt, sem er ótrúlegt afrek. Ef við lítum bara á krónutöluna þá hafa útgjöldin aukist um ja, líklega núna með þessu um 75%. Jafnvel þótt við verðleiðréttum þetta hefur þessi ríkisstjórn náð að auka útgjöld ríkisins um meira en þriðjung sem engin önnur ríkisstjórn í sögu Íslands, held ég að mér sé óhætt að segja, hafði gert, hugsanlega ef við lítum fram hjá einskiptiskostnaði vegna bankahrunsins.